Fréttir

LÝSI hlýtur Fjörusteininn, umhverfisviðurkenningu Faxaflóahafna

02.06.2011

Föstudaginn 20. maí s.l. var Fjörusteinninn veittur í fimmta sinn og var það Hjálmar Sveinsson, formaður stjórnar Faxaflóahafna sf. sem afhenti Katrínu Pétursdóttur viðurkenninguna.

Í rökstuðningi fyrir viðurkenningunni segir m.a. að við uppbyggingu fyrirtækisins á Fiskislóð 5-9 (2005) hafi verið í hávegum hafðar þarfir verksmiðjunnar ásamt mikilli snyrtimennsku við uppbygginguna og allan frágang umhverfis. Svo vel hefur tekist til að almenningur veit ekki að á þessum stað er stærsta verksmiðja sinnar tegundar hér á landi. 
 
En áherslur í umhverfisstefnu LÝSIS snúa ekki einungis að verksmiðjunni og umhverfi hennar.  Fyrirtækið fer í einu og öllu að lögum og reglugerðum um umhverfismál. Fyrirtækið notar eingöngu lýsi úr fiskistofnum, sem eru undir alþjóðlega viðurkenndri veiðistjórnun og eru ekki á válista alþjóðlegu náttúruverndarsamtakanna IUCN yfir tegundir í útrýmingar hættu.  Þá leitast fyrirtækið við að þróa aukaafurðir úr þeim efnum sem falla til við vinnslu lýsis.

Aftur í fréttayfirlit