Fréttir

LÝSI UNDIRBÝR BYGGINGU NÝRRAR VERKSMIÐJU FYRIR ÞURRKUN FISKHAUSA

06.07.2015

Miklar fjárfestingar í mengunarvarnarbúnaði í Þorlákshöfn hjálpuðu – en ekki nóg

Í Þorlákshöfn eru reknar tvær verksmiðjur sem þurrka fiskhausa og á LÝSI aðra þeirra. Svona verksmiðjum fylgir alltaf hvimleið lykt sem erfitt er að losna við. Ekki vantaði samt viðleitnina hjá LÝSI því í september 2010 mátti lesa á heimasíðu LÝSIS frásögn af því að rándýr hreinsunarbúnaður var settur upp til að minnka eða koma í veg fyrir lyktarmengun frá hausaþurrkuninni. Þar sagði:

Allt loft frá verksmiðjunni er leitt inn í stokk þar sem óson blandast við það. Síðan berst ósonblandað loftið inn í 2 þvottaturna sem hvor um sig er 9 metra hár og 3 metrar í þvermál. Þegar loftið leitar upp eftir turnunum úðast ósonblandað vatn úr 48 stútum yfir loftið og þvær það og kælir. Efst í hvorum turni er eins metra þykkur massi af kúlugrindum sem óhreinindin setjast á og sem vatnsdroparnir frá úðurunum skola niður.

Nú er hins vegar fullreynt að ekki hefur tekist að ná lyktinni alfarið í burtu og því er stefnt að því að flytja starfsemina út fyrir bæinn og á fyrirtækið í viðræðum við bæjaryfirvöld um heppilegan stað. Þá þarf að tryggja aðgengi að heitu vatni sem notað er við þurrkunina. Verður lagt kapp á að flýta framkvæmdum eins og unnt er.

Aftur í fréttayfirlit