Fréttir

Rannsóknir á fitusýrum til lækninga

01.05.2014

Fitusýrur úr þorskalýsi hafa bakteríudrepandi áhrif

Rannsóknir hafa sýnt að fríar fitusýrur  unnar úr þorskalýsi hafa bakteríudrepandi og veiruhemjandi áhrif, auk þess sem erlendar rannsóknir hafa sýnt að margar af þeim fitusýrum sem finnast í lýsi hafa bólgueyðandi verkun.

Fríar fitusýrur úr þorskalýsi virðast einnig hafa vöðvaslakandi og æðavíkkandi áhrif með því að örva framleiðslu köfnunarefnismónoxíðs. Það ásamt öðrum eiginleikum gæti gert þær að kjörlyfi í meðferð við sjúkdómum þar sem nauðsyn er á bólgueyðandi og vöðvaslakandi áhrifum svo sem við gyllinæð.

Sprotafyrirtækið Lipid Pharmaceuticals hefur í samvinnu við Lýsi rannsakað og þróað smyrsli sem inniheldur blöndu af ómega-3 fitusýrum en blandan er framleidd hjá Lýsi.

Glasatilraunir hafa staðfest virkni fitusýrublöndunnar á bakteríur og sveppi auk þess sem þolrannsóknir á fólki hafa sýnt fram á öryggi í notkun smyrslisins.

Verið er að leggja drög að klínískum rannsóknum á áhrifum smyrslisins á fótavörtur og leikskólavörtur (flökkuvörtur), en bráðabirgðaniðurstöður benda til þess að fitusýrurnar hafi umtalsverð áhrif á þær.  

Aftur í fréttayfirlit