Fréttir

Úlfaldi gerður úr mýflugu

15.11.2012

Þegar aðilar sem fjalla um mál skilja ekki málið til hlítar er hætta á rangtúlkun. Þetta henti virta sjónvarpsmiðla.

Í sjónvarpsfréttum RÚV 14. nóvember komu fram alvarlegar fullyrðingar sem eiga rætur að rekja til þáttar í danska sjónvarpinu. Frásögninni var fylgt úr hlaði með þeim ummælum að tiltekin söluvara Lýsis á dönskum markaði, Omega-3 lýsisperlur, hefði fengið „falleinkunn“ í danska þættinum. Fyrir þeirri fullyrðingu er enginn fótur. Hugtakið „falleinkunn“ er frá RÚV komin.

Í danska þættinum kom fram að gildi þránunar (totox gildi) í náttúrulegu Omega-3 hefðu reynst vera á bilinu 3-22 hjá framleiðendum sem komu við sögu og gildi vara Lýsis hefði reynst hlutfallslega hátt í úrtakinu.

Um þetta skal eftirfarandi tekið fram:

Þránun er að vissu marki eðlileg í allri olíu til manneldis, bæði fiski- og jurtaolíu. Þránunargildi sem mældust í könnuninni eru fullkomlega eðlileg og í samræmi við þá staðla og lyfjaskrár sem í gildi eru og hafa engin áhrif á jákvæða eiginleika Omega-3 fitusýra. Matvælastofnun Danmerkur sá ástæðu til að staðfesta þetta í yfirlýsingu í tilefni nefnds þáttar í danska sjónvarpinu.*

Því skal líka haldið til haga að Lýsi hf. vinnur samkvæmt ströngustu gæðakröfum sem fyrirfinnast í matvæla- og lyfjaframleiðslu. Fyrirtækið hefur verið leiðandi í hreinsun og fullvinnslu á lýsi í yfir 70 ár og er þekkt á mörgum mörkuðum fyrir framúrskarandi gæði.  

Omega-3 fitusýrur eru nauðsynlegar mannslíkamanum og því vert að ítreka heilsusamleg áhrif vörunnar, sem er vísindalega margsannað mál.

* Sjá yfirlýsingu matvælastofnunar Danmerkur á heimasíðu viðkomandi ráðuneytis:
•        http://www.foedevarestyrelsen.dk/Forbruger/Emner/Mad_og_drikke/Sider/Fiskeolier.aspx

* Sjá líka umfjöllun um málið í Danmörku á heimasíðu matvælaiðnaðarins þar:
•       http://foedevarer.di.dk/nyheder/pages/fiskeoliekapsleroverholderallekrav.aspx

Aftur í fréttayfirlit