Fréttir

Áhrif fiskolíu í fæði á byrjunar- og lausnarfasa vakamiðlaðrar bólgu

02.01.2015

Valgerður Tómasdóttir varði doktorsritgerð sína í líf- og læknavísindum í september síðastliðnum.

Ritgerðin ber heitið: „Áhrif fiskolíu í fæði á byrjunar- og lausnarfasa vakamiðlaðrar bólgu“ - „The effects of dietary fish oil on the induction and resolution of antigen-induced inflammation.“

Doktorsritgerðin fjallar um áhrif fiskolíu í fæði músa á byrjunar- og hjöðnunarfasa bólgu og á sérhæfða ónæmiskerfið í vakamiðlaðri kviðarholsbólgu.

Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að í byrjunarfasa bólgunnar fækkaði fiskolía í fæði fjölda neutrófíla í kviðarholi, stytti hjöðnunarbilið og lækkaði styrk bólguhvetjandi boðefnanna G-CSF og IL-6 og flakkboðanna CXCL1 og CCL11 í kviðarholsvökva. Í hjöðnunarfasanum jók fiskolía í fæði styrk bólguhamlandi boðefnisins TGF-β og boðefnaviðtakans sIL-6R í kviðarholsvökva og tjáningu á D6 og CCR7 á kviðarhols makrófögum. Í síðbúnum hjöðnunarfasa jók fiskolía í fæði fjölda eosínófíla og CD138 jákvæðra makrófaga í kviðarholi. Fiskolía í fæði hafði einnig áhrif sérhæfða ónæmissvarið með því að auka fjölda T og B1 frumna í kviðarholi, auka fjölda IgM jákvæðra frumna í milta og hækka styrk mBSA sértækra IgM mótefna í sermi.

Niðurstöðurnar benda til þess að fiskolía í fæði hafi dempandi áhrif á bólgusvar í vakamiðlaðri bólgu en auki virkni hjöðnunarfasans. Að auki benda niðurstöðurnar til þess að fiskolía auki B1 frumusvar og geti því mögulega aukið vörn gegn endurteknum sýkingum.

Valgerður Tómasdóttir er fædd árið 1979, lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1999, BS prófi í sameindalíffræði frá Háskóla Íslands árið 2003 og MS prófi í líftækni frá Háskólanum í Lundi árið 2005. Hún starfaði hjá lyfjaþróunardeild Íslenskrar erfðagreiningar frá 2006-2008. Valgerður hóf doktorsnám við Læknadeild Háskóla Íslands árið 2008 og hefur starfað sem verkefnastjóri og sérfræðingur í Lyfjaupplýsingadeild á Skráningarsviði Actavis frá árinu 2012.


http://lifvisindi.hi.is/news/2014-09-26/valgerdur-tomasdottir-doktor-i-lif-og-laeknavisindum

Aftur í fréttayfirlit