Fréttir

D-VÍTAMÍN MIKILVÆGT FYRIR GEÐHEILSU

04.01.2016

Gamla, góða þorskalýsið er með D vítamíni, en oft er skortur á því yfir vetrartímann

Ný íslensk rannsókn, sem birt var nýlega í Journal of Nutritional Science, styður þá kenningu að samband sé milli D-vítamínskorts og þunglyndis. Rannsóknin er hluti af risavaxna samevrópska verkefninu MooDFOOD. Ingibjörg Gunnarsdóttir, verkefnisstjóri íslenska hlutans, segir niðurstöður benda til þess að stórir skammtar af D-vítamini hjálpi ekki til að bæta geðið, heldur sé mikilvægt að halda sér rétt ofan við lágmarksmörk. Allir ættu því að taka inn D-vítamín, en ekki of mikið.


Hlutverk D-vítamíns í beinheilsu er vel þekkt en D-vítamín virðist einnig geta haft áhrif á fleira, eins og geðheilsu. Fyrstu niðurstöður íslenska hluta verkefnisins birtust í Journal of Nutritional Science í vikunni. Þar er sýnt fram á það að þeir sem mælast með lágt D-vítmín í blóði eru líklegri til þess að hafa verið þunglyndir á einhverjum tímapunkti. „Okkar greiningar benda samt ekki til þess að fólk myndi hafa gagn af mjög stórum skömmtum af D-vítamíni til þess að bæta geðið, heldur eru það eingöngu þeir sem eru mjög lágir sem voru líklegri til að vera þunglyndir. Margir samverkandi þættir geta haft áhrif á D-vítamín í blóði, en það virðist mikilvægt að koma öllum upp fyrir 30 nmól/l, meðan hærri D-vítamín gildi myndu líklega ekki skila bættri geðheilsu miðað við niðurstöður rannsóknarinnar. Þannig að allir ættu að taka inn eitthvað af D-vítamíni en kannski ekki allt of mikið.“

Byggt á grein í Fréttatímanum 4. desember 2015

Aftur í fréttayfirlit