Fréttir

Fyrsta skóflustungan að nýrri verksmiðju LÝSIS tekin í dag

10.06.2011

Aukin eftirspurn veldur því að nýleg verksmiðja LÝSIS sem byggð var árið 2005 er nú að mestu fullnýtt.

Eftirspurn eftir afurðum LÝSIS hefur verið mjög góð, en um 90% afurðanna eru seld til annarra landa.  Þar er bæði um neytendavörur að ræða, en að magni til er stærstur hluti útflutningsins magnvara sem seld er til framleiðenda á neytendavöru í öllum byggðum álfum heimsins.  Eftir vaxandi sölu ár frá ári er nú svo komið að afkastagetan er nær fullnýtt, og fyrirsjáanleg aukning á eftirspurn kallar á aukna framleiðslugetu.  Henni á að mæta með byggingu nýrrar verksmiðju á Fiskislóðinni við hlið núverandi verksmiðju.  Nýja verksmiðjan verður tæpir 4.000 fermetrar að stærð og í henni búnaður sem tvöfaldar núverandi afkastagetu.
 
Eins og síðast er það Héðinn sem annast mun hönnun og uppsetningu verksmiðjunnar, Arkþing hannar bygginguna og aðalverktaki er  J.E.Skjanni.  Auk nýju verksmiðjunnar verður skrifstofurými tvöfaldað og rými verður fyrir tanka og vörugeymslu.  Búnaðurinn kemur til landsins í nóvember næstkomandi og hefja tæknimenn Héðins þá uppsetningu, samhliða byggingu hússins.  Áformað er að þessi nýja viðbót verði tekin í notkun næsta vor og mun afkastageta verksmiðjunnar þá aukast úr yfir 6 þúsund tonnum í um 13 þúsund tonn á ári. Það er Landsbankinn sem fjármagnar verkið.
 
Það er gaman að geta þess að nýverið var LÝSI úthlutað Fjörusteininum, umhverfisviðurkenningu Faxaflóahafna hf. Í rökstuðningi segir m.a. að við uppbyggingu fyrirtækisins á Fiskislóð 5-9 (2005) hafi verið í hávegum hafðar þarfir verksmiðjunnar ásamt mikilli snyrtimennsku við uppbygginguna og allan frágang umhverfis. Svo vel hefur tekist til að almenningur veit ekki að á þessum stað er stærsta verksmiðja sinnar tegundar hér á landi. Nú verður hún enn stærri og eins og áður mun LÝSI leggja áherslu á sátt við umhverfið.

Aftur í fréttayfirlit