Fréttir

LÝSI BÝÐUR NÚ UPP Á NÁTTÚRULEGAR FISKIOLÍUR SEM HRÁEFNI TIL LYFJAGERÐAR

28.10.2015

Með því hefur fyrirtækið skapað sér algjöra sérstöðu á markaði

LÝSI hf. hefur um langt árabil selt lýsisafurðir sínar til ýmissa lyfjafyrirtækja. Þessi fyrirtæki hafa notað þær í eigin afurðir, ýmist beint eða með íblöndun við önnur efni. Í einhverjum tilvikum hafa þessar nýju afurðir verið skilgreindar og skráðar sem lyf.

Til þess að koma til móts við þarfir viðskiptavina lagaði fyrirtækið skipulag sitt að kröfum staðla um framleiðslu virkra efna til lyfjagerðar (GMP-API). Lauk þeirri vinnu með GMP-vottun árið 2007.

Ekki var látið staðar numið við vottunina. Að ósk eins viðskiptavinar LÝSIS hófst árið 2013 undirbúningur framleiðslu á virkum lyfjaefnum. Bætt var við starfsmönnum með sérþekkingu á þessu sviði og fjárfest í búnaði.


Mikilvægur áfangi náðist svo þegar LÝSI stóðst úttekt Lyfjastofnunar og var í skráð á lista Lyfjastofnunar Evrópu yfir framleiðendur á virkum lyfjaefnum. Endanlegu markmiði var svo náð í maí 2015 þegar bresk lyfjayfirvöld samþykktu LÝSI sem framleiðanda virkra efna í skráð lyf.

Viðskiptavinum LÝSIS býðst nú að kaupa lýsi sem er tilbúið til lyfjagerðar um leið og þeim er boðin aðstoð við skráningar. Með því að bjóða upp á náttúrlegar fiskiolíur sem virk lyfjaefni hefur LÝSI skapað sér algjöra sérstöðu á markaði.

Aftur í fréttayfirlit