Fréttir

LÝSI eignast IFEX sem framleiðir fóður fyrir gæludýr

05.06.2007

Í gær gekk LÝSI HF. frá kaupum á 53% hlut í fyrirtækinu IFEX ehf. en fyrir átti LÝSI 47% eignarhlut.  IFEX hefur sérhæft sig í framleiðslu fóðurs fyrir hunda og  ketti.  Um 95% framleiðslunnar hafa verið flutt úr landi til Bandaríkjanna, Evrópu og Asíu.   

IFEX er fyrirtæki sem frá árinu 2001 hefur sérhæft sig í framleiðslu fóðurs fyrir hunda og ketti. Hjá fyrirtækinu starfa 10 manns.  Það hefur lagt metnað sinn í að framleiða eingöngu hágæðavöru unna úr íslensku hráefni.  IFEX rekur verksmiðju í Þorlákshöfn sem liggur vel að helstu fiskimiðum okkar. Ennfremur hefur fyrirtækið framleitt Harðbita og Snakkbita til manneldis.  Um 95% framleiðslunnar hafa verið flutt úr landi til Bandaríkjanna, Evrópu og Asíu. 

Vörurnar hafa hlotið góðar móttökur erlendis enda ekki mörg fyrirtæki sem framleiða hunda- og kattamat úr hreinum íslenskum fiski án allra aukaefna. 

Lýsi er þekkt fyrir framleiðslu sína á einstökum hollustuvörum svo sem þorskalýsi og Omega 3 vörum sem framleiddar eru í fullkomnustu verksmiðju sinnar tegundar í heiminum.  Var hún tekin í notkun árið 2005. En Lýsi framleiðir einnig fóðurmjöl og fóðurlýsi og sér aukin tækifæri með kaupunum.  Katrín Pétursdóttir:” Við sjáum fyrir okkur margs konar samlegðaráhrif í þróun, framleiðslu og sölu vara beggja fyrirtækjanna.  Unnt er að auka verulega framleiðslu gæludýrafóðurs og Lýsi hefur þekkinguna á því hvernig nota má bætiefni til að ná fram enn meiri hollustu í fæði dýranna.  Það fer vel á að Lýsi stuðli að því að hundar, kettir og önnur dýr eigi einnig greiðan aðgang að hollustufæði, ekki síður en mannfólkið.  Bæði fyrirtækin eru með starfstöðvar í Þorlákshöfn sem auðveldar öll samskipti”. 

Nánari upplýsingar veitir Katrín Pétursdóttir í síma 899 5551

Aftur í fréttayfirlit