Fréttir

Lýsi virðist sporna við fæðuofnæmi í börnum

14.01.2011

„Fái börn lýsi reglulega virðist það draga úr líkum á fæðuofnæmi,“ segir Sigurveig Þ. Sigurðardóttir, sérfræðingur í barnalækningum. „Það er alltaf að koma betur og betur í ljós hvað lýsið er hollt.“

Fiskiofnæmi er þriðja algengasta fæðuofnæmið í ungbörnum hérlendis á eftir eggja- og 
mjólkurofnæmi.  Lýsi virðist sporna við fæðuofnæmi.

Í nýjasta hefti Læknablaðsins voru niðurstöður hluta alþjóðlegrar rannsóknar á fæðuofnæmi barna frá fæðingu til tveggja og hálfs árs aldurs kynntar. Ísland er fulltrúi norðursins en auk okkar taka átta aðrar Evrópu þjóðir þátt í rannsókninni sem er hluti af EuroPrevall-verkefninu. „Niðurstöðurnar sem birtast nú taka til tólf mánaða aldurs, en ekki er búið að vinna úr öllum gögnum svo ekki er um heildarniðurstöður að ræða heldur fæðuofnæmi í íslenskum börnum á fyrsta aldursári,“ segir Sigurveig Þ. Sigurðardóttir, sérfræðingur í barnalækningum, ofnæmis og ónæmislækningum, og einn af aðstandendum rannsóknarinnar hérlendis. 

Verðandi foreldrum var boðið að taka þátt í rannsókninni. Kysu þeir að gera svo svöruðu þeir spurningalista og komu með börnin í skoðun ef grunur lá á fæðuofnæmi. „Ofnæmispróf og svokallað tvíblint þolpróf leiddu í ljós að 1,86 prósent þeirra barna sem tóku þátt í rannsókninni voru með sannanlegt fæðuofnæmi,“ segir Sigurveig. Á næstu mánuðum verða birtar niðurstöður sem sýna samanburð á milli þjóðanna en þó liggur fyrir að helstu ofnæmisvakar hér á landi eru þeir sömu og í öðrum löndum. Egg og mjólk eru í flestum tilvikum ofnæmisvaldar, en athygli vekur að á Íslandi kemur fiskur í þriðja sæti. „Það er erfitt að draga ályktanir áður en búið er að taka saman og vinna úr öllum gögnum og heildarniðurstöður rannsóknarinnar liggja fyrir, en það er athyglisvert að fiskiofnæmi greinist hér í börnum undir eins árs aldri,“ segir Sigurveig.  Lýsi, sem við Íslendingar höfum löngum talið allra meina bót, fær í rannsókninni enn eina fjöður í hattinn. „Fái börn lýsi reglulega virðist það draga úr líkum á fæðuofnæmi,“ segir Sigurveig. „Það er alltaf að koma betur og betur í ljós hvað lýsið er hollt.“ 

Heimild: tryggvi@frettabladid.is. Fréttblaðið - Heilsa og Hreyfing, 8.01.2011, síða 4 

Aftur í fréttayfirlit