Fréttir

Ný gerð af lýsisþykkni

03.02.2010

Fyrir nokkru hófst hjá Lýsi framleiðsla á lýsisþykkni með mjög háu hlutfalli DHA fitusýra.

Undir lok árs 2008 hófst framleiðsla á lýsisþykkni í verksmiðju Lýsis við Fiskislóð.  Fyrsta afurðin var þykkni af gerðinni 33/22 en nafnið vísar til þess að hlutfall EPA fitusýrunnar er ≥33% og hlutfall DHA ≥22%.  Í þykkninu eru fleiri ómega-3 fitusýrur en EPA og DHA og er heildarhlutfall ómega-3 fitusýra 65%. Það er nærri tvöfalt hærra hlutfall en er í lýsinu sem þykknið er unnið úr. Í því er hlutfall EPA 18%, hlutfall DHA 12% og heildarhlutfall ómega-3 fitusýra um 35%. Ómega-3 33/22 þykkni er selt í hylkjum undir nafninu Omega forte auk þess sem þykknið er flutt út sem magnvara til erlendra framleiðenda.

Á síðasta ári hófst framleiðsla á nýrri tegund af lýsisþykkni. Um er að ræða þykkni af gerðinni 5/50. Í því er hlutfall EPA ≥5% en hlutfall DHA er mjög hátt eða ≥50%.  Heildarhlutfall allra ómega-3 fitusýra í 5/50 þykkninu er einnig um 65%. 

EPA og DHA fitusýrur eru manninum lífsnauðsynlegar. Rannsóknir hafa lengst af beinst að jákvæðum áhrifum EPA á hjarta- og æðasjúkdóma, einnig á liðabólgur og gigt. Í kjölfar þessara rannsókna hefur eftirspurn eftir EPA aukist verulega. Síðustu árin hefur athyglin beinst í auknum mæli að DHA og jákvæðra áhrifa þess á meðgöngu, fóstur, þroska heila- og taugakerfis og ýmsa geðræna sjúkdóma.

Nýja 5/50 þykknið verður fyrst um sinn flutt út sem magnvara en í skoðun er að setja það á markað innanlands og þá í hylkjum eins og Omega forte. 

Aftur í fréttayfirlit