Fréttir

Nýtt lyf við hægðatregðu

22.04.2012

Verið er að prófa nýtt íslenskt lyf, unnið úr lýsi, við hægðatregðu hjá börnum sem koma á Barnapítala Hringsins.

Lyfið er þróað af Lipid Pharmaceuticals, sem er samstarfsverkefni Háskóla Íslands, Landspítala og LÝSIS.  Lyfið er í formi stíla sem innihalda hreint lýsi og fitusýrur unnar úr lýsi.  Þau lyf sem notuð hafa verið fram að þessu eru ekki í formi stíla, heldur gefin með sprautustútum sem er mun óþægilegra.

Tvær rannsóknir hafa verið gerðar á stílunum áður og þá á fullorðnu fólki.  Niðurstöður sýna að stílarnir virka vel og eru ekki hættulegir, og nú er verið að rannsaka hvaða áhrif þeir hafa á börn.

Orri Þór Ormarsson, barnaskurðlæknir og aðalrannsakandi, segir núverandi lyf við bráðahægðatregðu nánast ekkert hafa verið rannsökuð gagnvart börnum.  Líklega er hér um fyrstu rannsóknina á því sviði að ræða, en hægðatregða er eitt algengasta heilbrigðisvandamál barna á Íslandi.

Aftur í fréttayfirlit