Fréttir

Þátttaka Lýsis í þjóðarátakinu Þjóðþrif

10.02.2020

Í dag var undirritaður samningur um þjóðarátakið Þjóðþrif og er Lýsi einn af stofnaðilum að verkefninu.

Átakið, sem miðar að því að fá fyrirtæki til að endurvinna plast og fækka sótsporum, er á vegum fyrirtækisins Pure North Recycling og er Katrín Pétursdóttir, forstjóri Lýsis hf., stjórnarformaður þess.

Með samningnum mun Lýsi tryggja að allt plast sem fellur til hjá fyrirtækinu fari í endurvinnslu hjá Pure North Recycling, sem er eina fyrirtækið á Íslandi sem endurvinnur plast. Þar er hreinum plastúrgangi breytt í plastpallettur með notkun jarðvarma og annarra umhverfisvænna orkugjafa.

Vinnsluðaferðin er einstök á heimsvísu og byggir á íslensku hugviti. Fenginn var óháður aðili til að gera lífsferlisgreiningu á vinnsluaðferðunum til samanburðar við samskonar endurvinnslu annars staðar í heiminum og var niðurstaðan sú að plastpallettur Pure North Recycling eru umhverfisvænasta plast í heimi. Fyrir hvert tonn sem endurunnið er af plasti hjá fyrirtækinu sparast 0,7 tonn af kolefni, næstum tonn á móti tonni. Fyrir hvert tonn sem endurunnið er sparast auk þess 1,8 tonn af olíu vegna þess hversu olíufrekt það er að framleiða nýtt plast.

Þátttaka Lýsis í verkefninu er veigamikill liður í umhverfisverndarstefnu fyrirtækisins og erum við ákaflega stolt af því að vera ekki einungis virk í umhverfisvernd heldur leiðandi á því sviði.

Aftur í fréttayfirlit