Hjarta- og æðakerfi

Rannsókn á blóðþrýsingi hjá öldruðum

14.01.2014

Í 10 tbl. Læknablaðsins 2012 greindi frá niðurstöðum rannsóknar sem nefnist: Fæðuvenjur og fylgni við blóðþrýsting meðal eldri Íslendinga. Þar kom fram marktæk neikvæð fylgni milli lýsisneyslu og slagbilsþrýstings.

Tilgangur: Tíðni langvinnra sjúkdóma, svo sem háþrýstings, eykst með hækkandi aldri, en fæðuvenjur og aðrir lífsstílsþættir geta haft áhrif á þessa þróun. Þar sem háþrýstingur er einn helsti áhættuþáttur hjarta- og æðasjúkdóma meðal eldra fólks eru tengsl mataræðis og blóðþrýstings mikilvægt rannsóknarefni. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna tengsl fæðuþátta, sérstaklega lýsis, við blóðþrýsting meðal eldri Íslendinga á höfuðborgarsvæðinu og meta fæðuneyslu þeirra með samanburði við íslenskar og norrænar ráðleggingar um mataræði og næringarefni.

 Efniviður og aðferðir: Þátttakendur voru 236 talsins, 65 til 91 árs gamlir Íslendingar af höfuðborgarsvæðinu. Níutíu og níu karlar (42%) og 137 konur (58%) tóku þátt. Mataræði þeirra var metið með þriggja daga veginni fæðuskráningu og blóðþrýstingur mældur eftir 12 tíma föstu.

 Niðurstöður: Flestir þátttakendur fengu meira en lágmarksskammt af öllum nauðsynlegum næringarefnum. Hins vegar fengu 19% minna en lágmarksskammt af D-vítamíni, 13% af joði, 17% karla af B6-vítamíni, og 26% karla og 12% kvenna af járni.

 Marktæk neikvæð fylgni var á milli lýsisneyslu og slagbilsþrýstings. Þessi tengsl voru enn til staðar eftir að leiðrétt hafði verið fyrir aldri, þyngdarstuðli, kyni og inntöku á blóðþrýstingslækkandi lyfjum (p=0,01). Neysla á löngum ómega-3 fitusýrum tengdist slagbilsþrýstingi einnig marktækt. Aðrir fæðuþættir tengdust ekki lóðþrýstingi.

 Ályktanir: Niðurstöður benda til þess að neysla á lýsi sé tengd lægri blóðþrýstingi meðal eldra fólks og hafi á þann hátt jákvæð áhrif á heilsufar. Stór hluti þátttakenda var í áhættuhópi vegna skorts á D-vítamíni, B6-vítamíni, joði og járni.

 

Höfundar: Atli Arnarson, næringarfræðingur, Ólöf Guðný Geirsdóttir, næringarfræðingur, Alfons Ramel, næringarfræðingur, Pálmi V. Jónsson, læknir, Laufey Steingrímsdóttir, næringarfræðingur og Inga Þórsdóttir, næringarfræðingur.

Til baka