Hjarta- og æðakerfi

Rannsókn á Blóðþrýstingi

14.03.2014

Ný rannsókn leiðir í ljós að Omega-3 fitusýrur geta lækkað blóðþrýsting álíka mikið og aðrar lífsstílsbreytingar.

Niðurstöðurnar sem birtar voru á vegum American Journal of Hypertension sýndu að Omega-3 fitusýrurnar EPA og DHA, hafa hliðstæð áhrif á blóðþrýsting og aðrar ráðlagðar breytingar á lífsstíl, svo sem aukin hreyfing, minni neysla áfengis og salts. Þetta eru góðar fréttir fyrir þá sem þjást af háþrýstingi, en í þeim hópi eru t.d. um 60% fullorðinna Bandaríkjamanna.

Um var að ræða safngreiningu þar sem dregnar voru saman niðurstöður úr 70 eldri rannsóknum á áhrifum EPA og DHA á blóðþrýsting. Rannsóknirnar náðu bæði til einstaklinga með eðlilegan blóðþrýsting og einstaklinga með háþrýsting. Þeir sem voru með háþrýsting voru ekki á blóðþrýstingslækkandi lyfjum. Tekið var tillit til heildarneyslu EPA og DHA, hvort sem fitusýrurnar komu úr fæðu eða fæðubótarefnum.

Áhrif EPA og DHA voru mest á þá sem þjáðust af háþrýstingi. Meðal þeirra lækkaði slagbilsþrýstingur um 4,51 mm Hg að meðaltali og hlébilsþrýstingur um 3.05 mm Hg. Hjá þeim sem voru með eðlilegan blóðþrýsting lækkaði slagbilsþrýstingur að meðaltali um 1,25 mm Hg og hlébilsþrýstingur um 0,62 mm Hg.

Breyting á lífsstíl Meðallækkun slagbilsþrýstings
(nær til þeirra sem eru með háþrýsting og ekki taka lyf við honum)
 Neysla á EPA+DHA  4,51 mm Hg
 Dregið úr saltneyslu (natríumi)  3,6 mm Hg
 Aukin hreyfing  4,6 mm Hg
 Dregið úr áfengisneyslu  3,8 mm Hg

Haft er eftir Dominik D. Alexander, einum aðalhöfundi rannsóknarinnar, að jafnvel smávægileg lækkun á blóðþrýstingi geti haft umtalsverð jákvæð áhrif. Samkvæmt annarri rannsókn (Stamler, et al.) veldur 2 mm lækkun blóðþrýstings því að dauðsföllum vegna heilablóðfalls fækkar um 6%, dauðsföllum vegna hjartaáfalls fækkar um 4% og heildardánarlíkur minnka um 3%.

Nánar um rannsóknina

Til baka