Meðgangan og barnið

RÁÐLEGGUR FÓLKI AÐ TAKA LÝSI FYRIR GETNAÐ

07.04.2015

Fiskmeti og lýsi innihalda omega-3 fitusýrurnar EPA og DHA, sem eru mjög mikilvægar fyrir eðlilegan þroska og starfsemi líkamans. Þær eru framleiddar í litlu magni í líkamanum og verða því að koma úr fæðu. Guðrún segir þetta ekki síst eiga við um börnin sem eru að þroskast og unga fólkið sem ætlar að eignast börn.

Guðrún V. Skúladóttir sem er doktor í lífefnafræði, starfar við Háskóla Íslands og hefur mörg undanfarin ár unnið að rannsókum á omega-3 fitusýrum og áhrifum þeirraá heilsufar. Hún mælir eindregið með að fólk neyti fiskmetis og taki lýsi.


Omega-3 fitusýrurnar fyrir verðandi foreldra og fóstur

„Allt bendir til að sáðfrumurnar séu sprækari í körlum sem taka lýsi en mikið er af DHA í hala sáðfruma. 

Omega-3 fitusýran DHA er í miklu magni í heila og sjónhimnu. DHA er því mikilvæg fyrir fósturþroska og einnig fyrir þroska einstaklingsins fyrstu ár ævinnar. Fóstrið fær DHA um fylgju frá móðurinni og nýburinn úr móðurmjólkinni. 

Ef móðir borðar ekki fisk og tekur ekki lýsi, gengur meðganga og brjóstagjöf á DHA forða móðurinnar.“ Guðrún bætir við að síðan sé mikilvægt að gefa börnunum lýsi eftir að þau fæðast. Bæði vegna omega-3 fitusýranna EPA og DHA og vítamínanna, A og D.

„Konur sem eru með lítið af omega-3 fitusýrum í líkama sínum eru líklegri til að fá fæðingarþunglyndi og þetta með þunglyndið gildir raunar almennt um fólk. 

Ef það er duglegt að taka lýsi og borða fiskmeti er ólíklegra að það fái slíka geðsjúkdóma.“

Minni og viðbragðstími

Heilinn, já. Minni ber hér einnig á góma en Guðrún dregur fram rannsóknarniðurstöður sem birtust nýlega í grein í virtu vísindatímariti þar sem kemur fram að DHA fitusýran eykur bæði minni og viðbragðstíma í heilbrigðu ungu fólki.

Ofvirkni og athyglisbrestur

„Mér finnast niðurstöður rannsókna um áhrif omega-3 fitusýra á ADHD sannfærandi. Þær hafa sýnt að börnum líður betur ef þau taka lýsi og þau eru rólegri en börn sem ekki fá omega-3 fitusýrur. Lýsi virðist því gagnast gegn ofvirkni, og það hafa komið fram vísbendingar um að athygli og minni batni hjá börnum sem taka lýsi og þetta á reyndar einnig við um fullorðna,“ segir hún.

Fæðuofnæmi hjá börnum

Guðrún hefur eins og margir, áhyggjur af breyttu mataræði hér á landi þar sem fiskneysla virðist á undanhaldi. Minnkandi fiskneysla eykur hættuna á því að fólk fái ekki omega-3 fitusýrur í nægilegu magni. Þar kemur lýsið að sjálfsögðu til sögunnar en hún hvetur fólk einnig til þess að huga vel að fæðuvali sínu og þá ekki síst þegar kemur að fiskmeti.

Hún bendir hér sérstaklega á rannsókn Sigurveigar Þ. Sigurðardóttur læknis og fleiri sem birtist í janúar s.l. í Læknablaðinu. Þar er skoðað hvort og þá hvernig D-vítamín og omega-3 fitusýrurnar tengjast fæðuofnæmi hjá börnum. Hér er það D-vítamín og hin lífsnauðsynlegu EPA, sem skipta meginmáli. 

Í niðurlagi greinarinnar (í Læknablaðinu) segir: „Niðurstöður rannsóknarinnar benda til að neysla ungra barna á lýsi tengist minni líkum á að börn fái fæðuofnæmi.“

Vart þarf að taka fram að Guðrúnu koma þessar niðurstöður ekki á óvart. Hún segir það skiljanlegt að ef lífsnauðsynlegu efni er ábótavant í líkamanum þá komi það niður á líkamsstarfsemi einstaklings. Guðrún hvetur foreldra til að hafa fisk oftar á borðum fjölskyldunnar og að allir taki lýsi.

Barnabörnin heimta lýsi 

Þá er bara aðalspurningin eftir þótt svarið sé líklega augljóst. Tekur Guðrún sjálf lýsi?

„Já, að sjálfsögðu og gaf dætrum mínum alltaf lýsi meðan þær bjuggu heima og barnabörnin biðja um lýsi, þegar þau koma í næturgistingu.

Það finnst mér alveg dásamlegt.“

Til baka