Framleiðsla

Sérhæfð framleiðsla

Eftirspurn eftir nýjum tegundum lýsis hefur farið stigvaxandi og því flytur LÝSI inn hráefni til vinnslunnar víðs vegar að. Með því hefur fyrirtækið náð meiru út úr framleiðslutækjum og nýtt þann þekkingargrunn sem fyrir hendi er og þannig getað boðið viðskiptavinum fjölbreyttara úrval af heilsusamlegum vörum.

Framleiðsluferlið

Lýsisframleiðsla felst meðal annars í að skilja lýsið frá lifrinni, skilja vatn og óhreinindi úr lýsinu og vinna verðmæt efni úr því. Hjá LÝSI er lögð áhersla á að oxun lýsisins sé lágmörkuð við framleiðslu og lykt og bragð fjarlægð úr því með náttúrulegum aðferðum.

Verksmiðjur Lýsis — einstakar að uppbyggingu

LÝSI byggir á áratuga reynslu og hefur ætíð verið í fremstu röð framleiðslufyrirtækja í heiminum. Tilkoma nýrra verksmiðja árin 2005 og 2012 hefur svo tryggt fyrirtækinu forystu á sínu sviði um ókomin ár. Verksmiðjurnar gera fyrirtækinu kleift að bjóða upp á fjölbreytt úrval lýsisafurða í hæsta gæðaflokki.

Aðgangur að hráefni

LÝSI er ómetanlegt að hafa þróast og eflst sem hluti af öflugum sjávarútvegi Íslendinga, með aðgangi að einum gjöfulustu fiskimiðum heims. Auk þess flytur fyrirtækið inn hráefni víða að, - frá Evrópu, Suður-Ameríku, Norður-Afríku og Asíu.

Aðalverksmiðja og höfuðstöðvar LÝSIS eru í Reykjavík, en þess utan er fyrirtækið með lifrarbræðslu, hausaþurrkun og framleiðslu á gæludýrafóðri í Þorlákshöfn. Þá á LÝSI niðursuðuverksmiðjuna Akraborg.