Fréttir

NEYSLA LÝSIS Á MEÐGÖNGU DRÓ ÚR ÁHÆTTU BARNA Á AÐ FÁ ASTMA

11.01.2017

Astmi er sjúkdómur sem er tvöfalt algengari í þróuðum ríkjum en hann var fyrir nokkrum áratugum og talið er að í Bandaríkjunum þjáist meira en sex milljónir barna af honum og 330 milljónir alls í veröldinni.

Konur sem neyttu lýsis síðustu 3 mánuði meðgöngunnar lækkuðu marktækt líkurnar á því að barnið fengi astma samkvæmt danskri rannsókn sem Dr. Bisgaard stýrði og kostuð var af þarlendum yfirvöldum.

Rannsóknin náði til 736 kvenna og sýndu helstu niðurstöður að 16,9% barna þeirra mæðra sem tóku inn lýsi höfði fengið astma við þriggja ára aldur en 23,7% þeirra sem neyttu lyfleysu. Þetta er 31% minnkun áhættu.

Vísindamennirnir sem stóðu að rannsókninni tóku fram að þeir væru ekki tilbúnir til þess að ráðleggja verðandi mæðrum að taka lýsi á grundvelli þessarar rannsóknar einnar og sér. Það þyrfti að endurtaka hana með breyttum skömmtum og byrja fyrr á meðgöngu. Þótt ekki hafi komið fram nein óæskileg áhrif á móður eða barn lægi fyrir að dagskammturinn 2,4 grömm af ómega-3 fitusýrum hafi verið mjög hár miðað við neyslu Bandaríkjamanna. Til samanburðar innihalda 10 ml af þorskalýsi sem er ráðlagður neysluskammtur um 2,2 grömm af ómega-3 fitusýrum.

Börnunum var fylgt eftir til sjö ára aldurs og var hlutfall astmaveikra lægra hjá mæðrahópnum sem tók lýsið. Mestur var munurinn við þriggja ára aldur hjá börnum mæðra sem voru með lítið magn af fitusýrunum EPA og DHA í blóðinu í upphafi rannsóknar. Í þeim hópi reyndust 17,5% barna vera með astma á móti 34,1% þeirra mæðra sem tóku lyfleysu. Þetta er minnkun áhættu um 54%. Þannig virðast áhrifin vera mest hjá þeim mæðrum sem höfðu lítið magn EPA/DHA fitusýra í blóðinu hvort heldur var af erfðafræðilegum orsökum eða lítilli neyslu þeirra.

Fréttin er unnin upp úr grein eftir Denise Grady sem birtist í New York Times 28.12.2016. Sú grein birtist í heild á enskum vef LÝSIS: http://www.lysi.com/news/article/taking-fish-oil-during-pregnancy-is-found-to-lower-childs-asthma-risk

Niðurstöður rannsóknarinnar birtust í The New England Journal of Medicine.

Aftur í fréttayfirlit