Sagan

Stofnun Lýsis

Lýsisævintýrið hófst árið 1936, með skeyti frá E. C. Wise hjá lyfjafyrirtækinu Upjohn í Michigan í Bandaríkjunum. Skeytið var stílað á Tryggva Ólafsson og í því var spurt hvort hann gæti útvegað þorskalýsi. Upjohn hafði fram að þessu keypt lýsi frá Noregi, en þurfti að finna annan birgi eftir að hlutfall A- og D-vítamína í norska lýsinu hafði skyndilega hrapað. Tryggvi átti ekki verksmiðju en hann átti hentuga lóð. Hann hélt því ásamt eiginkonu sinni til Noregs árið 1937 til að kaupa tæki. Verksmiðjan tók svo formlega til starfa 10. janúar 1938.

1938-1957

Eftirspurnin eftir A- og D-vítamíni, og þar með þorskalýsi, var mikil og LÝSI varð fljótlega stærsti framleiðandi þorskalýsis á Íslandi. Megnið af framleiðslunni var flutt út til Bandaríkjanna, en á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar sömdu ríkisstjórnir Íslands og Bretlands um að Bretar fengju að kaupa helming framleiðslunnar á meðan á stríðinu stæði. Um 1950 dró verulega úr eftirspurn eftir þorskalýsi og verðið féll.

1958-1977

Erlendi markaðurinn fyrir þorskalýsi var áfram erfiður, en þrátt fyrir það skilaði LÝSI hagnaði. Á þessum árum hófst framleiðsla á kaldhreinsuðu þorskalýsi í neytendapakkningum. Um 1960 var rannsóknarstofu komið á laggirnar og reglubundnar rannsóknir á þorskalýsi hófust. Æ síðan hefur heimamarkaðurinn gegnt mikilvægu hlutverki í þróun nýrra vara, og reynslan síðan verið flutt yfir á aðra markaði.

1978-1997

Árið 1979 komust vísindamenn að því að neysla lýsis dregur úr líkum á hjarta- og æðasjúkdómum. Þetta hafði mikil áhrif á almenning og vinsældir þorskalýsis jukust á ný. LÝSI lagði á þessum árum síaukna áherslu á rannsóknar- og þróunarstarf með þeim árangri að fyrirtækið er nú leiðandi þekkingarfyrirtæki hvað varðar ómega-3 og notkun þess.

1998-

Undanfarna áratugi hefur salan aukist hratt og rannsóknir og þróun verið öflugri en nokkru sinni áður. 2005 og 2012 voru nýjar verksmiðjur teknar í notkun, búnar fullkomnustu tækjum sem völ er á. Sölu- og markaðsstarf LÝSIS hefur borið góðan árangur sem meðal annars sýnir sig í því að árið 2007 fékk LÝSI Útflutningsverðlaun forseta Íslands.