Fréttir

Opinberlega staðfest að DHA er mikilvægt fyrir þroska heila og augna ungbarna

20.05.2011

Evrópusambandið staðfestir þrjár nýjar heilsufullyrðingar tengdar ómega-3 fitusýrunni DHA og þroska ungbarna.

Matvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA) hefur undanfarið unnið að endurskoðun
heilsufullyrðinga sem tengjast fæðubótarefnum og matvælum. Verkefnið er liður í
ábyrgri stefnu Evrópusambandsins varðandi merkingar matvæla, og er ætlað
að koma í veg fyrir að villandi eða rangar upplýsingar berist til neytandans. Hópur sérfræðinga og vísindamanna sér um að fara yfir umsóknir um heilsufullyrðingar og meta hæfi þeirra.  

Hér er á ferðinni enn ein staðfestingin á að neysla ómega-3 fitusýra er ómissandi
þáttur í næringu okkar allra og skiptir sköpum þegar kemur að heilbrigði og
þroska barna.

Fullyrðingarnar eru eftirfarandi:

Inntaka DHA stuðlar að eðlilegum þroska augna fósturs og ungbarna sem nærast á brjóstamjólk

Inntaka DHA stuðlar að eðlilegum þroska heila fósturs og ungbarna sem nærast   á brjóstamjólk

Inntaka DHA stuðlar að eðlilegum þroska sjónar hjá ungbörnum að 12 mánaða aldri

Notkunarleiðbeiningar fylgja með. Fyrstu tveimur fullyrðingunum skal sérstaklega beint til þungaðra kvenna og kvenna með barn á brjósti. Tekið er fram að gagnleg áhrif komi fram ef daglega er neytt yfir 200 mg af DHA til viðbótar eðlilegri neyslu af ómega-3 fitusýrunum EPA og DHA (250 mg). 
Með síðustu fullyrðingunni skal tekið fram að gagnleg áhrif fáist með minnst 100 mg daglegri neyslu af DHA.

LÝSI mun fljótlega setja á markað nýja vöru sem inniheldur DHA þykkni.  Ein perla inniheldur 450 mg af DHA.  Þessi vara er því kjörin viðbót við almenna neyslu á lýsi fyrir þungaðar konur og konur með barn á brjósti.  DHA er almennt talið hafa góð áhrif á andlega heilsu, sjón og einbeitingu þó það hafi ekki verið staðfest á sama hátt og fyrrnefndar fullyrðingar.  Líkur eru á að slíkar fullyrðingar verði staðfestar innan tíðar.

Aftur í fréttayfirlit