Fréttir

Einstæð lausn á lyktarvanda

13.09.2010

Tvær lausnir sameinaðar í eina losa íbúa Þorlákshafnar við lyktina frá þurrkverksmiðju Lýsis.

Landsmenn muna margir eftir deilum um lyktarmengun frá þurrkverksmiðju Lýsis í Þorlákshöfn en Lýsi rekur aðra tveggja þurrkverksmiðja í bænum.  Fyrirtækið og bæjaryfirvöld voru langt í frá sammála um lausn á málinu.  Nú hefur verið settur upp einstakur búnaður sem miklar vonir eru bundnar við.

Lýsi hafði um nokkurt skeið reynt að nota óson til lykteyðingar með því að dæla því inn í þurrkklefa, en fyrirtækið hefur yfir að ráða stærsta ósonkerfi landsins.   Reyndist lausnin ekki fullnægjandi.  Á hinn bóginn var vel þekkt sú aðferð að nota kæli- og þvottaturna við hreinsun á reyk.  Kjartan Ólafsson, verksmiðjustjóri hjá Lýsi í Þorlákshöfn, fékk þá snilldarhugmynd að sameina þetta tvennt og kæla útblástur verksmiðjunnar með ósonblönduðu vatni. Hugmyndin var svo útfærð nánar, og mannvirkið hannað og smíðað af Héðni.

Allt loft frá verksmiðjunni er leitt inn í stokk þar sem óson blandast við það.  Síðan berst ósonblandað loftið inn í 2 þvottaturna sem hvor um sig er 9 metra hár og 3 metrar í þvermál. Þegar loftið leitar upp eftir turnunum úðast ósonblandað vatn úr 48 stútum  yfir loftið og þvær það og kælir. Efst í hvorum turni er eins metra þykkur massi af kúlugrindum sem óhreinindin setjast á og sem vatnsdroparnir frá úðurunum skola niður.

Byrjunin lofar góðu en verkinu lauk í maí þegar teknir voru í gagnið blásarar til að búa til undirþrýsting í sjálfu verksmiðjuhúsinu. Kjartan segir að frá því að búnaðurinn var settur upp hafi engin kvörtun borist og svo virðist sem almenn ánægja sé með framtakið af hálfu bæjarbúa. Það er ekki auðvelt að mæla lykt, en þess er vænst að í nokkurri fjarlægð frá verksmiðjunni muni milli 90 og 100 % lyktarinnar hverfa, en þétt við verksmiðjuna verði einhver lykt eins og við allar fiskvinnslur landsins.

Aftur í fréttayfirlit