Fréttir

Lífolía í vegklæðningum

09.02.2013

Blæðing vegklæðninga er ekki ný af nálinni og sú síðasta verður ekki rakin til lífolíu frá LÝSI.

Nýlega var all mikið fjallað um blæðingu í vegklæðningum á ákveðnum vegaköflum.  Eins og oft vill verða var fréttaflutningur fjölmiðla nokkuð misvísandi og því rétt að koma nokkrum staðreyndum á framfæri.

Blæðingar í vegklæðningum hefur verið þekkt vandamál í 35 ár.  Hingað til hafa slíkar blæðingar verið tengdar notkun terpentínu (e. white spirit), sem notað er sem mýkingarefni í bikinu.  Þeir vegir sem voru í umræðunni nýverið voru lagðir aðallega með repjuolíu fyrir 2-3 árum þegar notkun lífolíu var rétt að byrja á Íslandi, og nú hefur komið í ljós að rekja má gallana til repjuolíu sem uppfyllti ekki skilyrði um gæði.

Tilfellið í vetur er ekkert einsdæmi og flokkast ekki meðal þeirra verstu.  Löngu áður en notkun repju- eða lífolíu hófst, sátu margir bílar,  aðallega flutningabílar, fastir á Holtavörðuheiðinni og Vegagerðin hefur margoft  greitt fyrir tjón á bílum af völdum vegblæðinga.

Öll sú lífolía sem LÝSI framleiðir hefur farið til vegagerðar á Íslandi síðustu 2-3 árin,  en einnig hefur verið flutt inn nokkuð mikið magn erlendis frá.  Lífolía er EKKI lýsi og eðliseiginleikar þessara efna eru gríðarlega ólíkir þó svo að lífolían sé framleidd úr lýsi.

Þúsundir kílómetra af vegklæðingum liggja um allt land og aðeins um 30 km hluti á afmörkuðu svæði blæddi fyrir stuttu.  Þetta getur gerst við ákveðin skilyrði og líklegast er að margir samverkandi þættir eigi hér hlut að máli.  Böndin beinast m.a. að óhóflegri og síendurtekinni söltun á vegaköflunum í bland með miklum þungaflutningum og umhleypingasömu veðri.

Aftur í fréttayfirlit