Fréttir

LÝSI hlýtur útflutningsverðlaun forseta Íslands

20.04.2007

LÝSI hf hlaut Útflutningsverðlaun forseta Íslands og afhenti forseti Íslands herra Ólafur Ragnar Grímsson verðlaunin á Bessastöðum við hátíðlega athöfn í dag. Þetta er í nítjánda sinn sem verðlaunin voru afhent en þau eru veitt í samráði og samvinnu við Útflutningsráð Íslands. Katrín Pétursdóttir forstjóri LÝSIS veitti verðlaununum viðtöku.

Valur Valsson, formaður úthlutunarnefndar, sagði meðal annars í ávarpi sínu í tilefni verðlaunaveitingarinnar: „LÝSI hf. fær verðlaunin fyrir þann einstaka árangur sem fyrirtækið hefur náð í sölu- og markaðsmálum á afurðum úr lýsi og fyrir þá framsýni sem fyrirtækið hefur sýnt í vöruþróun og eflingu þekkingar og færni á sínu sviði. Fyrirtækið er góður fulltrúi fyrir þann vaxandi fjölda íslenskra fyrirtækja sem haslar sér nú völl á alþjóðlegum neytendamarkaði með vörur og þjónustu er tengjast heilsueflingu og heilbrigðum lífsháttum."

Verðlaunagripurinn í ár er gerður af Leifi Breiðfjörð myndlistarmanni en merki Útflutningsverðlaunanna er eins og áður hannað af Hilmari Sigurðssyni.

Listaverkið eftir Leif heitir Kjarni og er unnið í silfurmósaík, spegil og gler. Um verk sitt segir listamaðurinn m.a.: „Hvert fyrirtæki á sér kjarna þekkingar og hugvits sem það byggir alla sína starfsemi og framleiðslu á."

Aftur í fréttayfirlit