Fréttir

Rannsókn á omega-3 gæti bjargað lífi hundruða hermanna og sparað milljarða dollara

02.02.2011

Þannig hljóðar fyrirsögn greinar í vefritinu Nutra ingredients-usa.com 14. janúar 2011.

Rannsóknir Bandaríkjahers á hermönnum í Írak gætu komið í veg fyrir fjölda sjálfsvíga og sparað ómældar fjárhæðir takist að sanna að neysla omega-3 fitusýra bæti geðheilsu og dragi úr streitu.

Dr. Daniel Johnston, yfirlæknir herfylkis í Írak stjórnar tveggja mánaða tvíblindri rannsókn þar sem áhrif omega-3 fitusýra eru borin saman við áhrif lyfleysu.

Dr. Johnston bendir á að streitusjúkdómar séu algengir meðal hermanna og meðhöndlun þeirra afar kostnaðarsöm.  Auk þess að draga úr sjálfsvígum gæti neysla omega-3 fitusýra flýtt fyrir bata vegna heilaskaða og bætt hæfni flugmanna.

Rannsóknin miðar að því að leiða í ljós hvort daglegur skammtur (2,52 g) af omega-3 fitusýrunum EPA og DHA sem fengnar eru úr lýsi bæti andlegt ástand hermanna og dragi úr streitu. Rannsóknin mun standa yfir í 8 vikur og verður viðmiðunarhópi á sama tíma gefin lyfleysa í formi omega-6 fitusýra úr maísolíu.  Ástand beggja hópa verður metið með geðprófum og mælingum á viðnámi gegn streitu.

Rannsóknin fer fram í tveimur herstöðvum í norður Írak. Á henni að ljúka 26. febrúar nk. og er búist við að niðurstöður verði birtar í maí á þessu ári.

Heimild: Nutra ingredients-usa.com newsletter 14 January 2011

Aftur í fréttayfirlit