Fréttir

ÞORSKALÝSI DREGUR ÚR LÍKUM Á FÆÐUOFNÆMI

01.02.2017

Samkvæmt nýrri rannsókn sem Sigurveig Þ. Sigurðardóttir, barna- ofnæmis- og ónæmislæknir, kynnti á Læknadögum nýverið, fá börn sem taka lýsi frá sex mánaða aldri síður fæðuofnæmi en börn sem ekki taka lýsi. 

Skoðaður var hópur barna sem tók reglulega lýsi og hann borinn saman við börn sem ekki tóku lýsi. Um helmingur foreldra gaf börnum sínum lýsi frá því fyrir eða um 6 mánaða aldur.

Um 1.300 íslensk börn tóku þátt í rannsókninni. Af þeim greindust 40 með fæðuofnæmi. Þau börn sem tóku lýsi fyrir og eftir sex mánaða aldur greindust síður með fæðuofnæmi og fæðunæmi. Líkurnar minnkuðu um 50% ef börnin tóku lýsi. Sigurveig nefndi að „skortur á D-vítamíni og ómega-3 fitusýrum gæti hugsanlega orðið til þess að fólk fái fæðuofnæmi” en þorskalýsi er einmitt ríkt af þessum næringarefnum. Að mati Sigurveigar eru íslenskir foreldrar í heild duglegir við að gefa börnum sínum lýsi.

Rannsóknin var hluti af EuroPrevall-rannsókninni á fæðuofnæmi og unnin í samvinnu við átta önnur Evrópuríki. Niðurstöðurnar verða birtar í vísindatímariti á næstunni.

Samkvæmt ráðleggingum um næringu ungbarna frá embætti landlæknis er mælt með því að börn neyti lýsis frá sex mánaða aldri en fram að því eiga þau að fá D-dropa. Í ráðleggingunum segir að ekki sé þörf fyrir aðra næringu en brjóstamjólk fram að sex mánaða aldri.

Unnið upp úr grein á mbl.is 24.01.2017

Aftur í fréttayfirlit