Annað

Er lýsi hitað við framleiðslu?

07.04.2015

Óunnið lýsi er ekki hæft til manneldis. Það er ekki aðeins bragðvont heldur getur það innihaldið aðskotaefni sem gerir hreinsun óhjákvæmilega. Verksmiðja LÝSIS í Reykjavík er búin fullkomnum tækjabúnaði til að hreinsa lýsi og tryggja að það uppfylli kröfur um heilnæmi og bragðgæði.Hvers vegna er lýsi hitað?

Þegar lýsi er unnið verður að hita hráefnið svo að lýsið náist úr lifrinni og fiskholdinu. Það er útilokað að hreinsa lýsi án þess að hita það en um leið verður að gæta þess að súrefni komist ekki í snertingu við lýsið. Þess vegna er lýsi alltaf hitað undir lofttæmi hjá Lýsi hf. Allt lýsi í neytendaumbúðum er þar að auki kaldhreinsað svo það storkni ekki við geymslu í kæli.

Stöðugar mælingar

Með stöðugum mælingum á EPA og DHA sannreynir Lýsi hf. að það sé sama magn af fitusýrum í lýsinu fyrir og eftir vinnslu. D-vítamín brotnar niður í vinnslunni, því er D-vítamíni með nákvæmlega sömu virkni bætt í lýsið eftir vinnslu til að tryggja að magn D-vítamíns sé alltaf það sama.Til baka